Styrkjadagatal 2018

Þá er komið að því sem mörg ykkar hafa beðið eftir. Styrkjadagatalið fyrir 2018 er „tilbúið“! Af hverju notum við gæsalappir? Vegna þess að rétt eins og listaverk er aldei tilbúið heldur er það bara það sem það er þegar listamaðurinn ákveður að hætta að vinna í því, þá er styrkjadagatal í raun aldrei tilbúið heldur. Við ákváðum einfaldlega að láta hér við sitja áður en þetta yrði 200 blaðsíðna dagatal sem yrði að skrímsli í höndum ykkar og ynni gegn tilgangi sínum, sem er að einfalda ykkur lífið.

Í þessu styrkjadagatali lögðum við áherslu á þrjá flokka:

  1. Nýsköpun, hönnun og rannsóknir

  2. Menningu og listir

  3. Viðskiptahraðla - ókei, þetta eru ekki styrkir per se en geta veitt ómælt virði til þátttakenda og við ákváðum því að hafa þetta inni. Mögulega verður þetta sér dagatal einhvern tímann.

Svo er þarna einn alls-konar flokkur sem er fyrir styrki sem ná yfir fleiri en eitt svið (t.d. uppbyggingarsjóðirnir sem veita styrki til nýsköpunar og menningarmála) eða eru fyrir svið sem falla utan þess sem hefur verið upptalið hér fyrir ofan (t.d. menntaverkefni og samfélagsverkefni).

Nokkur atriði til að hafa í huga:

- Inni í skjalinu eru hlekkir á viðkomandi styrki. Við erum búnar að prófa alla hlekkina (sem eru hátt í 200 talsins) en ef þið lendið í brotnum hlekk megið þið endilega senda okkur línu svo við getum kippt því í lag.

- Í sumum tilvikum eru dagsetningar ekki staðfestar og höfum við aðgreint þá styrki með ská- og feitletruðu letri.

- Þá styrki sem eru opnir allt árið um kring settum við á 31. desember.

- Ef þið vitið um áhugaverða styrki sem ykkur finnst vanta hér inn á þá megið þið endilega senda okkur línu með upplýsingum á info@poppinsandpartners.com. 

Eins og þið sjáið er þetta svolítð árstíðabundið en þó eitthvað í hverjum mánuði, þó eftir því í hvaða geira þið eruð. En það þýðir ekki að þið eigið að liggja í sólbaði og drekka límonaði með klaka allan júní og júlí á meðan þið bíðið eftir að nær dragi september. Ó nei elsku fólk. Nýtið björtu sumarmánuðina til að afmarka verkefnin, vinna rannsóknarvinnu og SKRIFA á meðan þið eruð full orku í dásamlegu dagsbirtunni sem við fáum að njóta í nokkrar vikur á ári. Þessar umsóknir skrifa sig nefninlega ekki sjálfar svo þú verður að gera það (nema þú fáir P&P í verkið - þá þarft þú lítið sem ekkert að skrifa sjálf/-ur). 

Gangi ykkur vel!
Þórunn & Hanna Kristín

 

p.s. eins og þið sjáið er skjalið ekki fallegasti andarunginn á tjörninni. Til að gera langa sögu stutta þá byrjuðum við að vinna þetta í Excel og þá var ekki aftur snúið. Svo kom í ljós alls konar export vesen þegar unnið er í Mac og formötunarvesen þegar skjalið var opnað í PC. En það er ekki útlitið, heldur innihaldið sem skiptir máli. Tillögur að betri útfærslu fyrir 2019 eru vel þegnar! Frír klukkutími í ráðgjöf fæst fyrir bestu tillöguna.