Hluthafasamningar

Þegar fyrirtæki er stofnað eru ýmis lagaleg formsatriði sem ganga þarf frá, svo sem samþykktir félagsins, stofnfundargerð, skráning hlutafjár og skráning hjá Fyrirtækjaskrá. Annað og ekki síður mikilvægt atriði sem vert er að huga að þegar tveir eða fleiri aðilar stofna saman fyrirtæki er að gera hluthafasamning þar sem samstarf og réttindi hluthafa eru skilgreind nánar. 

--
Farðu neðst í þessa færslu til að ná í frítt sýnishorn af hluthafasamningi
--

Hvers vegna eru hluthafasamningar mikilvægir?

Þar má helst nefna þrjár ástæður. 

  1. Allir hluthafar þekki réttindi sín og skyldur gagnvart öðrum hluthöfum

  2. Ljóst er hvernig tekið skal á ágreiningsmálum áður en þau koma upp

  3. Til er ferli fyrir ákvarðanatöku er varðar stórar ákvarðanir, t.d. hvað skal gera ef einn hluthafi vill frá hverfa eða ef kauptilboð berst í félagið sem einn hluthafi vill taka en annar ekki

Það er dásamleg tilfinning að taka fyrstu skrefin með nýtt fyrirtæki og má að mörgu leiti segja að margt sé um líkt með því og hveitbrauðsdögum nýgiftra einstaklinga. Lífið er bjart og ekkert getur farið úrskeiðis. En það er eins með hluthafasambönd og ástarsambönd, þau geta farið út um þúfur. Til að fyrirbyggja, eða í versta falli draga úr dramanu er nauðsynlegt að vera með skriflegan samning milli aðila, nokkurs konar kaupmála, þar sem búið er að skilgreina ferli fyrir mismunandi aðstæður sem upp geta komið við erfiða ákvarðanatöku og/eða ágreining hluthafa.

Segjum sem svo að tveir hluthafar séu í fyrirtækinu X ehf. og upp komi ágreiningur á milli þeirra sem ekki er hægt að leysa á farsælan máta. Ljóst er að annar hluthafinn þarf að víkja, selja þarf fyrirtækið eða hreinlega loka því ef ekki fæst viðhlítandi niðurstaða. Ef skriflegt hluthafasamkomulag er fyrir hendi er tiltölulega einfalt að leysa viðkomandi ágreining þar sem fyrir liggur ferli fyrir það hvernig skuli takast á við aðstæður sem þessar. Þetta segi ég með þeim fyrirvara að það er sjaldnast eða aldrei auðvelt þegar einn eða fleiri hluthafar hætta í frumkvöðlafyrirtækjum. Það er næstum því jafn erfitt að takast á við hluthafaskilnað eins og það er að skilja við maka. Hér eru oftast bæði peningar og tilfinningar í spilinu og eins og flestir vita getur það verið eldfim samsetning. En ef enginn hluthafasamningur er fyrir hendi þarf að setjast niður og reyna að komast að samkomulagi í aðstæðum þar sem væntingar aðila eru að öllum líkindum ósamstilltar og enginn samningur til staðar sem vísað getur veginn. Þegar tilfinningar bætast í spilið eiga hlutirnir það til að enda illa og þekkjum við mörg dæmi þess að efnileg fyrirtæki, og frumkvöðlarnir sem að þeim stóðu, hafi farið illa út úr slíkum aðstæðum.

Ég hef oft heyrt frumkvöðla segja að þeir séu alveg á leiðinni að setjast niður og gera hluthafasamkomulag, en hafi bara ekki fundið tíma til þess. Það er svolítið eins og að leggja af stað í gönguferð í gegnum mikið skóglendi án korts og áttavita og furða sig svo á því að villast.

Hvað felur hluthafasamningur í sér?

Eins og áður hefur komið fram er um að ræða formfestu í kringum samstarf tveggja eða fleiri hluthafa og réttindi þeirra gagnvart öðrum hluthöfum. Þessi samningur þarf ekki að vera flókinn og honum þarf ekki að skila inn til Fyrirtækjaskrár með stofnpappírunum. Í samninginn er gott að setja atriði eins og tikgang og hlutverk félagsins sem stofnað er og ferla fyrir ákvarðanatöku á borð við það sem lýst hefur verið hér fyrir ofan. Þá er þetta tækifæri til að setja niður á blað ábyrgð hvers hluthafa, t.d. ef grundvöllur samstarfsins er háður einhverju sem annar eða báðir aðilar koma með í reksturinn eða hyggjast inna af hendi.

Sýnishorn af hluthafasamningi

Til að gera ykkur lífið aðeins auðveldara höfum við tekið nokkra hluthafasamninga og týnt það besta úr hverjum og einum inn í drög að samningi sem þið getið sótt frítt.

Við ítrekum að aðeins er um að ræða sýningareintak af því hvernig samningur af þessu tagi getur litið út og er hann því ekki tæmandi yfir þau atriði sem stofnendur gætu viljað hafa inni í samningi af þessu tagi. Við mælumst til þess að þið fáið lögfræðing til að lesa yfir ykkar síðustu samningsdrög áður en þið skrifið undir.

Til að ná í frítt sýningareintak af hluthafasamningi, smelltu á bláa hnappinn hér fyrir neðan og fylgdu leiðbeiningunum. Hluthafasamningurinn verður sendur með tölvupósti. Með því að láta í té netfang þitt samþykkir þú þann fyrirvara að um sýnishorn af hluthafasamningi er að ræða og að Poppins & Partners bera enga lagalega ábyrgð á skjalinu, því sem þar kemur fram, eða mögulegri notkun þinni eða annarra á því.

 

Ef þið hafið þegar stofnað fyrirtækið og kannski rekið í nokkur ár en aldrei gert samning af þessu tagi þá er aldrei of seint að koma málum í rétt horf. Þó að þið séuð komin í skóginn og hafið lært að rata nokkuð vel án aðstoðar þá þýðir það ekki að kort og áttaviti kæmu ekki að góðum notum, er það?