Samþykktir verkþættir hjá Tækniþróunarsjóði

Þá sér loksins fyrir endann á umsóknarskrifum í Tækniþróunarsjóð í þetta skiptið og í fullkomnum heimi væru flestir á góðu róli við að hnýta lausa enda og dunda sér við að fylla inn í rafrænu umsóknina. En raunveruleikinn er sá að margir sjá fyrir sér að vinna fram á síðustu mínútu til að ná að senda inn góða umsókn. Ekki örvænta, þetta fer alveg að verða búið!

Við sjáum oft í okkar starfi að fólk klikkar á því að lesa reglur sjóðsins og skrifar umsóknina nokkuð út í bláinn án þess að gera sér grein fyrir hverju sjóðurinn leitar að og hvað er leyfilegt samkvæmt reglum hans. Einn af þeim þáttum sem verður mörgum að falli er að tilgreina í verkáætlun verkþætti sem eru ekki leyfilegir eða að kostnaður vegna uppbyggingar markaðsinnviða er of hár. Hvoru tveggja getur orðið til þess að umsókn er vísað frá án efnislegrar skoðunar.

En hvaða verkþættir eru þetta og er einhver munur á því hvað er leyfilegt eftir því hvaða styrk er sótt um?

Stutta svarið við spurningunni er að í Fyrirtækjastyrkjum eru ákveðnir markaðsþættir sem eru leyfilegir og hámark á því hvað þeir mega kosta á meðan í Markaðsstyrkjum er ekki verið að styrkja þróun eða staðfæringu en ekkert hámark á markaðskostnaði, eðli málsins samkvæmt.

Heilt yfir alla styrkjaflokka eru ákveðnir kostnaðarliðir sem Tækniþróunarsjóður styrkir EKKI. Má þar nefna fjárfestingu í hráefnum/búnaði og tækjum, fjárfestingu í sjálfu framleiðsluferlinu (t.d. launum, húsnæði og tækjabúnaði), eða afborganir skulda, vaxtagjöld og lántökukostnað (rekstrarleigubíll þar með talinn). Ekki er hægt að setja kostnað vegna einkaleyfa á kostnaðaráætlun hér, en hægt er að sækja um sérstakan einkaleyfisstyrk hjá sjóðnum til að standa straum af þeim kostnaði.

Hér munum við stikla á stóru varðandi Fyrirtækjastyrkina annars vegar og Markaðsstyrkinn hins vegar, en leggjum áherslu á að þessi umfjöllun er ekki tæmandi og bendum á lið 2.6 í reglum Tækniþróunarsjóðs fyrir nánari útskýringar.

Fyrirtækjastyrkir (Sproti/Vöxtur/Sprettur)

Ef setja á uppbyggingu markaðsinnviða í verk- og kostnaðaráætlun Fyrirtækjastyrkja verður að passa tvennt;

1. Kostnaður við þá verkþætti (laun við að framkvæma þá þarmeðtalin) má ekki fara 10% styrkupphæðar sé sótt um Sprota og 20% styrkupphæðar sé sótt um Vöxt/Sprett.

2. Verkþættir vegna uppbyggingar markaðsinnviða sem samþykktir eru af sjóðnum eru: 
- Gerð vörumerkis, vefsíðu, umbúða, bæklinga og gerð annars kynningar- og markaðsefnis til að koma afurðinni á framfæri (t.d. vegna markaðsherferðar eða auglýsinga í miðlum).
- Gerð markaðsgreiningar, viðskipta- og markaðsáætlunar.
- Ferðir á ráðstefnur, fyrirlestra eða sölusýningar sem skapa tengsl við söluaðila og/eða neytendur afurðarinnar.
- Ráðgjöf vegna sölu- og markaðsstarfs.

Kostnaður vegna sölufólks og auglýsinga eru þannig ekki leyfilegur hér.

Markaðsstyrkur

Hvað Markaðsstyrkina varðar þá þarf þar að horfa til hvaða verkþættir og kostnaðarliðir eru EKKI samþykktir. Þegar kostnaðar- og verkáætlun fyrir þennan styrkjaflokk er unnin er mikilvægt, sem endranær, að verkefnið sé skýrt afmarkað og að eingöngu verk- og kostnaðarþættir sem heyra undir markaðsstarf fari þar undir.

Það sem ekki er samþykkt í markaðsstyrkjum er:
- Þróun vöru, þjónustu eða framleiðsluferils.
- Framleiðsla söluvöru (launa- og hráefniskostnaður þar með talinn) 
- Umbreyting eða aðlögun afurða fyrir ný markaðssvæði (t.d. þýðingar og ný virkni)

Við mælum svo með að þið prentið út tékklista P&P og farið yfir hvert atriði á honum áður en skilað er inn. Þó þið séuð með allt á hreinu þá er stundum gott að nota bæði belti og axlabönd í verkefnum sem þessum.

Gangi ykkur vel á lokasprettinum!