Uppfærðar reglur Tækniþróunarsjóðs vorið 2018

Tækniþróunarsjóður hefur opnað fyrir umsóknir, en umsóknarfrestur er til 15. febrúar kl. 16:00. Umsóknargögn og upplýsingar má nálgast hér.

Sjóðurinn hefur uppfært reglur um Fyrirtækjastyrki og er þar tvennt sem vert er að skoða.


Skrollaðu neðst á síðuna til að fá pdf skjal með 10 algengum mistökum við styrkumsóknaskrif og hvernig má forðast þau.


1. Leyfilegur markaðskostnaður við verkefni sem sækja um Fyrirtækjastyrki er sá sami, en eftirfarandi hefur verið bætt við reglurnar:

"Samspil þróunar við aðila á markaði og notendur er skipt í tvo þætti;
hagkvæmnisathugun annars vegar og markaðsinnviði hins vegar."

Leyfilegur markaðskostnaður við Fyrirtækjastyrki er eftirfarandi:

Sproti: Allt að 2 milljónir króna á tveggja ára styrktímabili í markaðsinnviði (umsókn er vísað frá ef farið er yfir þessi mörk) eða 1 milljón króna ef sótt er til eins árs.

Vöxtur: Allt að 10 milljónir króna á tveggja ára styrktímabili í markaðsinnviði (umsókn er vísað frá ef farið er yfir þessi mörk) eða 5 milljónir króna ef sótt er til eins árs.*

Sprettur: Heimilt er að styrkja allt að 15 milljónir króna á styrktímabili í markaðsinnviði.* Athugið þó að þegar sótt er um Sprett skal skrifa umsókn ásamt kostnaðar- og verkáætlun út frá því að sótt sé um Vöxt en taka fram í umsókn að óskað sé eftir að verkefnið verði metið í Sprett. Ef verkefnið fær svo samþykki fyrir Spretti gefst tækifæri til að skila uppfærðri kostnaðar- og verkáætlun. Þetta þýðir að miða skal kostnað vegna uppbyggingar markaðsinnviða við það sem leyfilegt er í Vexti, með það í huga að sá kostnaður megi hækka hljóti verkefnið Sprett.

*Athugið að kostnaður vegna einkaleyfa og hönnunarverndar er ekki styrkhæfur innan fyrirtækjastyrkja né kostnaður vegna auglýsingaherferðar eða kynningar og framsetningar afurðar í verslunum. Sjá nánar um samþykkta verkþætti í kafla 2.6 í reglum Tækniþróunarsjóðs

2. Hagkvæmnisathuganir eru nú leyfilegur verkþáttur, en hámark vegna slíkra athugana er ekki skilgreint.  Gera þarf grein og færa rök fyrir þeim kostnaði í umsókn.

3. Bent er á að leyfilegt sé að sækja um Markaðsstyrk samhliða Vexti og að styrkþegar megi vera með styrk í Vexti og Markaðsstyrk á sama tíma. Athugið þó að sem fyrr geta dótturfyrirtæki erlendra félaga ekki sótt um Markaðsstyrk auk þess sem hann fellur undir reglur um minniháttar aðstoð (de minimis), en það þýðir að fyritækið má ekki hafa fengið styrki frá opinberum aðilum sem nema hærri upphæð en 200.000 evrum, að meðtöldum þeim styrk sem sótt er um, á síðastliðnum tveimur reikningsárum auk yfirstandandi reikningsárs. 
 

Viðbætur við verkefnislýsingu

Að endingu viljum við benda á að búið er að bæta við eftirfarandi klausu í kafla 3.3. um Kostnað og fjármögnun í verkefnslýsingarskjalinu:

Tilgreinið stöðu fjármögnunar verkefnisins (t.d. hvaðan kemur fjármagnið, hver er staða viðræðna við fjárfesta, við hvaða fjárfesta er verið að ræða).

Þetta felur í raun í sér skerpingu á þeirri kröfu sem sjóðurinn hefur sett þeim sem ganga til samninga, eftir yfirhalningu umsóknargagnanna í fyrra, að sýna fram á að fjármögnun verkefnisins hafi verið tryggð eða að verið sé að vinna að því að tryggja hana. 
 

10 algeng mistök við styrkumsóknaskrif

Nú þegar 6 vikur eru fram að umsóknarfresti er ekki seinna vænna en að hefjast handa.

Við höfum tekið saman 10 algeng mistök við skrif á styrkumsóknum og hvernig þú getur forðast þau sem þú getur fengið á pdf formi hér.