Tækniþróunarsjóðstékklisti P&P

Þá er febrúar runninn upp og ekki nema tvær vikur í næstu skil á umsóknum í Tækniþróunarsjóð. Ef þið eruð ekki vel á veg komin (og jafnvel ekki byrjuð að skrifa) þá er ekki seinna vænna en að byrgja sig upp af Nocco og möndlum og taka góðan sprett næstu 14 dagana. 

Að mörgu er að huga síðustu dagana fyrir skil. Eðlilegt er að vinnan virðist yfirþyrmandi á köflum og oft einkennist ástandið af örlítilli ringulreið síðustu tvo sólarhringana fyrir skil. Til að forðast slíkt ástand er mikilvægt að setja sér strangar banalínur (er þetta ekki besta þýðing ever á orðinu deadline?!) til að halda takti og hámarka líkur á því að það náist að skila inn samkeppnishæfri umsókn. 

Við mælum með því að þið opnið rafrænu umsóknina að minnsta kosti viku fyrir skil og fyllið þar inn þær upplýsingar sem óskað er eftir sem eru óháðar verkefnislýsingunni og öðrum fylgigögnum. Það getur sparað ykkur heilmikinn tíma á lokasprettinum, en það er nokkuð algengt að fólk falli á tíma vegna þess hversu tímafrek útfylling rafrænu umsóknarinnar er. 

Samkeppnin um styrki úr Tækniþróunarsjóði er mikil og á bilinu 14-20% (mismunandi eftir styrkjaflokkum og tímabilum) þeirra sem sækja um styrk hljóta hann. Til gamans má geta að hittnihlutfall Poppins & Partners er 36%. Algengt er að sækja þurfi um tvisvar og jafnvel þrisvar (eða oftar) áður en styrkur hlýst og er þá afar mikilvægt að fá endurgjöf á verkefnið frá fagráði sjóðsins til að vinna út frá ef styrkur hlýst ekki. Falli verkefni á þeim formskilyrðum (girðingum) sem sjóðurinn setur fæst engin endurgjöf og umsækjandi er þá engu vísari um það hvort umsóknin stendur vel að vígi eður ei. Þetta er þekkt vandamál og fjöldi verkefna í hverju úthlutunarferli fær ekki endurgjöf vegna téðs falls á girðingum. Það eru mikil vonbrigði eftir að hafa lagt á sig mikla vinnu og beðið í þrjá mánuði eftir niðurstöðu sjóðsins að fá  þær upplýsingar að umsóknin hafi ekki verið tekið til efnislegrar umfjöllunar fagráðs af því markaðskostnaður var hærri en leyfilegt er eða reglum um word sniðmát verkefnislýsinguna var ekki fylgt. Og líkurnar á að þetta gerist eru, að okkar mati, töluvert meiri þegar verið er að vinna fram á síðustu mínútu fyrir skil. 

Það getur auðvitað komið fyrir besta og klárasta fólk að falla á formsatriðum, sérstaklega þegar ferlið er flókið og strangt eins og hjá Tækniþróunarsjóði. Við höfum sett saman tékklista fyrir Tækniþróunarsjóðsumsóknir sem er hluti af okkar innri ferlum í umsóknarskrifum með viðskiptavinum okkar.

Við ætlum að gefa þér þennan tékklista til niðurhals FRÍTT. Smelltu á hnappinn fyrir neðan til að ná í tékklistann.

Gangi þér vel á lokametrunum!

p.s. ef þú varst ekki búin að sækja 10 algeng mistök við skrif á styrkumsóknum og hvernig má forðast þau þá geturðu sótt það frítt hér. Alltaf að græða!